26.8.2009 | 10:48
Náðhúsið
Kominn er annar dagur og annar texti. Að þessu sinni við þjóðhátíðarlag Egó ,,Eyjan græna" og er í raun réttri lofsöngur um náðhúsið sem nokkrir vaskir menn reistu og tengdu milli Jónsmessu og júníloka. Fyrra erindið fjallar um þær nauðir sem menn þurftu að líða í gegnum aldirnar þegar allt varp fór fram í hlaðvarpanum í Urðhæðinni. Kom fyrir að menn lentu í ógöngum (betra er lenda í göngum en ógöngum!) bæði þegar þeir gengu um varpið eða voru að þétta varpsarpinn annars vegar vegna veðurfarslegrar þoku og hins vegar vegna þoku frá varpinu sjálfu. Til eru sannar lygasögur af mönnum sem skiluðu sér aldrei aftur eftir að hafa skilað af sér!
Seinna erindið er upptalning á þeim rösku og vösku mönnum sem velgjörðarverkið unnu. Viðlagið er alltaf sami lofsöngurinn líkt og í orginallaginu hjá Bubba.
Njótið heil
M&M
Náðhúsið
Náðhúsið, nægir vel okkar þörfum /
Náðhúsið, okkur sem hérna störfum. /
Um langan aldur í nepjunni, létum við okkur nægja /
losun í villtri náttúrunni - fórum þar okkur að hægja. /
Um miðja nótt neyddist fólk til að fara /
úr fleti í glóandi hægðum sínum /
sumir í myrkrinu villir vegar /úr varpinu snéru ei aftur! /
Náðhúsið, nægir okkar þörfum /
Náðhúsið, oss sem hérna störfum. /
Í júnílok hjóluðu fram um heiðar /
hægðum í skjóli að koma til leiðar. /
Tóti tengill og Big Ben /
trylltu með Gunnari um mýrar og fen /
Krissi kíminn og sposkur á svip /
kímdi ef hjá Óla úr vör lak hrip, /
en vagg og velta og óttalegt skak /
á Valtra hjá Rabba sem lestina rak! /
Náðhúsið, nægir vel okkar þörfum / Náðhúsið, okkur sem hérna störfum. /
Athugasemdir
Magnað !! þetta er mikið texta ár í ár og spurning hvort búið sé að semja fyrir heila plötu ?
Olof (IP-tala skráð) 26.8.2009 kl. 12:26
Algjörlega frábært eins og alltaf hjá þér góði minn:) þetta verður bara gaman!!
Kiddý (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 14:44
Góður texti og vafalaust gott náðhús. Nú óttast maður bara að menn fari nú þegar að halda í sér til að geta verið sem lengst í/á "Náðinni" þegar fram verður komið. En sem sagt nýir textar og taðhús. Þetta stefnir í enn eina "menningarnóttina".
Náð sé með yður !
Jón Magg (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 23:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.