10.9.2008 | 19:00
Höfum við gengið til góðs?
Komin er vika síðan lagt var upp með hesta fram á fremstu bæi og þar með lagt upp í fyrsta áfanga gangnanna. Því er eðlilegt staldra við um stund og horfa um öxl og velta fyrir sér hvort gengið hafi verið til góðs, götuna fram eftir veg í margfaldri merkingu.
1. Hvernig gengu hestarnir? Var það brokk eða tölt eða blanda hvoru tveggja = brölt?!
2. Hvernig smalaðist? Hversu mikið af metanlegu fjármagni varð eftir inn á ómetanlegum afréttinum?
3. Hvernig var menningarlífið og menningarnóttin í skála?
Það er ljóst að hestarnir gengu bæði upp og ofan. Einnig er ljóst að göngurnar gengu upp því féð smalaðist ofan nema þær tvær afvelta ær sem gangnastjórinn aflífaði sitt hvoru megin sama holts vestarlega í Geilum og heitir þar síðan Grafarholt. Sagnir herma að fjallkóngur hafi gert þetta með ,,einari " þar eð hann var með aðra hönd á stýri á leið í útkall á austurkantinn að aðstoða Jón Magg með sturlað stóð er stefndi til jökla. Þangað kom og að fyrrverandi fjallkóngur. Var Jón þá búinn að hæna að sér höfuðhrossin með því að herma eftir Þokkakögglum og útdeila blönduðum ávöxtum og Síríus-súkkulaði og temja nokkur tryppi og venja þau við nokkur grunnatriði eins og keyri og písk. Tókst þeim frændum og feðgum að snúa hrossunum til hafs og skiluðu þau sér til réttar. Jón ku ekkert taka fyrir tamninguna aukalega enda var hann þarna á ,,fullu" kaupi sem gangnamaður og átti þarna leið um hvort eð er. Má því segja að hann sendi eiganda tryppanna kveðju með hógværum og frægum orðum skáldsins frá Gljúfrasteini: ,,Er nokkuð fleira sem ég get gert fyrir yður?!"
Menningarnóttin var hefðbundin og byrjaði að kveldi dags. Fyrrverandi fjallkóngur var búinn að taka upp kartöflur, veiða og flaka fisk. Hesta-Sveinn steikti fiskinn faglega að vanda. Kvöldvöku gangsetti fjallkóngur með því að leggja mönnum línurnar og lesa upp línuna. Gangnastjóraskipti fóru fram því næst með hlýju handabandi. ,,Samskonarson" söng síðan nokkra frumsamda gangnasálma við undirleik Jóns Bergmanns sem sló á létta strengi. Einari Björnssyni var að því loknu fært dragspil að gjöf gegn því að það yrði staðsett í Urðhæð um aldur og ævi og Einari gert að spila á það í jafnlangan tíma. Eftir það þandi Einar dragspilið við almennan safnaðarsöng meðan menn höfðu vakandi auga og syngjandi sál. Menningarnótt lauk með því að Gísli Einarsson gekk lotinn út og suður og tók viðtal við bræðurna á Útistöðum sem eru fjórir að tölu að Siggu systur meðtalinni en þeir eru synir Jóns og þeirra systkina.
Nú andar suðrið og ég bið að heilsa
M&M
Athugasemdir
Góður pistill Magnús!
Eitthvað fóru bræðurnir...þó aðallega systirin illa út úr þessu viðtali hjá honum Gísla Einarssyni. Þau hafa sennilega ekki verið að höndla frægðina hehehe! Fullt af þekktu fólki þarna...mig minnir að Arnar Ingi hafi séð Pétur Jóhann á svæðinu massaðan í rusl og tanaðan í drasl
P.s. átti ekki gangastjórinn tryppin??
Sólrún (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 07:40
Já sælt veri fólkið!
Skemmtileg skrif hjá þér Magnús Allir komu þeir aftur......lalalalalalala Heimtur voru sérlega góðar þetta árið af Staðarbakkamönnum á dansleikinn góða í Ásbyrgi. Ekki hægt að segja það sama t.d. af Núpsmönnum!!!
Takk fyrir skemmtilega helgi allir.
Kveðjur úr sveitinni
Kiddý (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 08:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.